Gagnrýnendur bandarískra fjölmiðla fara í dag háðuglegum orðum um frammistöðu Britneyjar Spears á MTV-hádíðinni í gærkvöldi, og sagði tímaritið People að hún hefði greinilega þurft að æfa atriðið sitt betur. Washington Post sagði greinilegt að Britney væri „búin að missa neistann.“
Birtney dansaði og þóttist syngja nýja lagið sitt, „Gimme More,“ en söngur hennar var leikin upptaka. Washington Post segir henni hafa gengið illa að halda í við upptökuna og aldrei hafi farið milli mála að hún var ekki að syngja lagið, en textinn í því væri aðallega „gimme, gimme, gimme, gimme.“
Undir fyrirsögninni „Klaufaleg endurkoma Britneyjar,“ segir blaðið að Britney hafi aldrei verið nema rétt í meðallagi sem söngkona, þegar ferill hennar stóð sem hæst, en haft heillandi sviðsframkomu og verið persónugerving æsku og frelsis, og fegurð hennar beinlínis verið „nabokóvísk.“ En af atriði hennar í gærkvöldi megi ráða að hún sé nú „greinilega búin að missa neistann.“
LA Times spyr: „Hvenær verðum við búin að fá nóg af því að fylgjast með þessum ósköpum?“