Starfsmaður á McDonalds-veitingastað í Union City í Georgíu í Bandaríkjunum sat eina nótt í fangelsi fyrir að selja lögreglumanni brimsaltan hamborgara.
Lögreglumaðurinn segir að sér hafi orðið óglatt eftir að hann borðaði borgarann og þurft að kasta upp.
Starfsmaðurinn, Kendra Bull, viðurkenndi að hafa óvart sett of mikið salt í hamborgarann sem lögreglumaðurinn fékk. Hefur Bull verið ákærð fyrir gáleysi.
Talsmaður lögreglunnar segir að ekki liggi ljóst fyrir að Bull hafi verið kunnugt um að umræddur borgari væri fyrir lögreglumann. En hún hafi gert sér grein fyrir því að borgarinn stæðist ekki kröfur veitingastaðarins en engu að síður selt hann viðskiptavini.
Bull segist ekki skilja í því hvers vegna lögreglumaðurinn hafi borðað allan borgarann ef hann hafi verið svona hræðilega saltur.
Lögreglan hefur sent sýni úr borgaranum salta á réttarrannsóknarstofu ríkisins til rannsóknar.