Leikkonan og Óskarsverðlaunahafinn Jane Wyman er látin 93ja ára að aldri. Wyman var einnig þekkt fyrir að vera fyrrum eiginkona Ronalds Reagan Bandaríkjaforseta.
Wyman andaðist á heimili sínu í Palm Springs í Kaliforníu í dag. Hún lék m.a. í sápuóperunni vinsælu Falcon Crest.
Hún var fjórum sinnum tilnefnd til Óskarsverðlauna en verðlaunin hlaut hún fyrir hlutverk sitt sem heyrnarlaust fórnarlamb nauðgunar í kvikmyndinni Johnny Belinda frá árinu 1948.
Alls giftist hún fimm sinnum og þá á hún fjórar stjörnur á Frægðarstéttinni í Hollywood (e. Hollywood Walk of Fame).
Síðasta stóra hlutverk hennar var í þætti um lækninn Dr. Quinn árið 1993.