Hljómsveitin Led Zeppelin hefur boðað til blaðamannafundar á morgun og þykir fullvíst að sveitin hyggist tilkynna að hún muni koma saman aftur. Tónlistartímaritið NME sagði frá því í síðustu viku að Robert Plant, söngvari sveitarinnar hefði staðfest orðróminn um að viðræður hafi átt sér stað, en aðeins einir tónleikar verði haldnir.
NME hefur heimildir fyrir því að tónleikarnir fari fram á O2 leikvanginum í Lundúnum og að allur ágóði muni renna til góðgerðamála.
Getgátur hafa verið uppi á þessu ári um að sveitin ætlaði að koma saman aftur. Það verður að öllum líkindum trommuleikarinn Jason Bonham, sonur John Bonham sem upphaflega barði húðir með sveitinni, sem tekur sæti föður síns, en hann lést árið 1980, og leystist hljómsveitin upp í kjölfarið.