Bandaríska listakonan Madonna ætlar til Ísrael á morgun ásamt nokkrum félögum sem iðka kabbalah trú, sem er nokkurs konar dulspekitrú og tengist gyðingdómi. Gyðingar halda upp á nýárið um þessar mundir.
Er það kabbalah miðstöðin í Tel Aviv sem skipuleggur ferðina en auk Madonnu ætla leikarahjónin Ashton Kutcher og Demi Moore, Rosie O'Donnell og fatahönnuðurinn Donna Karan að sækja Ísrael heim síðar í vikunni.
Madonna hefur verið liðsmaður kabbalah frá árinu 1997 og árið 2004 tók hún upp hebreska nafnið Esther, sama ár og hún fór síðast til Ísrael. Þá lét hún hafa eftir sér að hún væri hræddari við æsiljósmyndara (paparazzi) heldur en sjálfsvígsárásarmenn.