Geraint Evans 28 ára gamall bóndi í Wales fór óhefðbundna leið til að finna þá einu réttu, hann lét setja mynd af sér á mjólkurfernur ásamt netfangi. Auglýsingin bar árangur þar sem rúmlega tvítug bandarísk námsmær sem var stödd í Wales sá auglýsinguna og varð ástfangin um leið.
Í dagblaðinu North Wales Daily Post kemur fram að Evans hafi ekki átt unnustu í fimm ár þar sem hann hafði aldrei tíma til að hitta konur vegna vinnuálags. Því brá hann á það ráð að auglýsa á mjólkurfernum en slíkt er ekki óalgengt í norðurhluta Wales.
Námsmærin Laura Allison lýsir því fyrir blaðinu hvernig henni varð við þegar hún keypti mjólkurfernu þar sem mynd af Evans blasti við. „Ég kom við í matvöruverslun til þess að kaupa nokkrar nauðsynjar og þegar ég kom að mjólkurkælinum var það eina sem ég sá var andlit þessa myndarlega manns sem starði á mig. Ég held að ég hafi orðið ástfangin um leið," segir Allison.
Hún ákvað hins vegar að taka lífinu með ró og hafði ekki samband við Evans fyrr en hún var komin aftur til Bandaríkjanna. Síðan hafa þau skipst á hundruðum tölvupósta, símtala og bréfa auk heimsókna.
Að sögn Evans er hann sannfærður um að Allison sé draumastúlkan og hann vilji kvænast henni sem fyrst.