„Það tók rosalega á fyrir okkur að segja nei við svona samningi. Samningurinn situr hérna uppi á hillu og ég les hann annan hvern dag," segir Jón Björn Árnason, bassaleikari hljómsveitarinnar Ourlives.
Sveitin neitaði nýverið útgáfusamningi við útgáfurisann Columbia. Samningurinn hljóðaði upp á fjórar breiðskífur og spannaði sjö ár. „Þetta var díll sem við vildum ekki gera. Við viljum eiga okkar tónlist aðeins lengur í staðinn fyrir að byrja á því að henda henni í stórfyrirtæki og eiga ekki réttinn."
Oft er sagt um útgáfurisa á borð við Columbia að listamennirnir þurfi að selja þeim sál sína líkt og djöflinum.
„Þetta var rosalegt fyrir lítið band að segja nei við sjö ára samningi við útgáfufyrirtæki," segir Jón Björn, sem vill ekki gera mikið úr málinu.
„Við erum ekki að fara lengra en við teljum okkar hafa efni á og öskra eitthvað í útlöndum. En við sáum bara ekki að við værum tilbúnir í að gera einhvern samning upp á sjö ár við fyrirtæki sem myndi eiga okkur. Þeir hefðu bara étið okkur á íslenskan máta, eins og sviðakjamma. Við vorum ekki að fíla það. Við vildum vera eins og hangikjöt og bíða aðeins."
Nánar í Blaðinu