Breski leikarinn Chris Langham var í gær dæmdur í 10 mánaða fangelsi fyrir að hafa barnaklám undir höndum. Dómari í málinu sagði að myndirnar sýndu grófar kynferðislegar árásir á börn. Langham hefur sagt, að hann hafi notað myndirnar til að undirbúa hlutverk, sem hann átti að leika í sjónvarpsþáttum.
„Börnin hafa öll sætt hræðilegum kynferðislegum árásum og ég vil gera þér ljóst, að ég hef þessi börn fyrst og fremst í huga. Þau eru of ung til að veita samþykki fyrir slíku," sagði dómarinn.
Langham var handtekinn árið 2005 eftir að myndir sem flokkast undir barnaklám fundust í nokkrum tölvum hans. Hann viðurkenndi að hafa skoðað myndirnar en sagðist hafa gert það vegna hlutverks í sjónvarpsþáttum sem hann var að búa sig undir að leika og því hefðu þetta verið rannsóknargögn. Langham þvertók fyrir að vera barnaníðingur.
Langham, sem er 58 ára, lék m.a. lítið hlutverk í myndinni Life of Brian. Þá hefur hann skrifað handrit að sjónvarpsþáttum, m.a. nokkrum þáttum um Prúðuleikarana og Not the Nine O'Clock News. Hann vann einnig með gamanleikurunum Mel Smith og Griff Rhys Jones. Hann hefur einnig leikið í fjölda breskra sjónvarpsþátta og á sviði.