Kanadíski leikstjórinn David Cronenberg hlaut aðalverðlaun nýafstaðinnar kvikmyndahátíðar í Toronto, en verðlaunin voru veitt síðastliðið laugardagskvöld.
Verðlaunin féllu honum í skaut fyrir myndina Eastern Promises. Hún fjallar um harðskeyttan rússneskan glæpamann, leikinn af Viggo Mortensen, sem þarf að grípa til örþrifaráða þegar konan í lífi hans (Naomi Watts) kemst yfir sönnunargögn um glæpaferil hans.
Cronenberg veitti verðlaununum ekki viðtöku sjálfur en hann var staddur í New York að kynna myndina.
Önnur verðlaun hátíðarinnar fékk Jason Reitman fyrir kvikmynd sína Juno, sem fjallar um þunganir unglinga. Þriðju verðlaun hlaut heimildamyndin Body of War sem fyrrverandi þáttastjórnandinn Phil Donahue gerði.