Bandaríska bíómyndin Ókindin, sem fjallar um stóran hvíthákarl sem ógnar íbúum og ferðamönnum á bandarískri baðströnd, verður sýnd í Laugardalslauginni í lok mánaðarins í tengslum við alþjóðlega kvikmyndahátíð í Reykjavík.
Samkvæmt upplýsingum frá kvikmyndahátíðinni verður sýningartjaldi komið fyrir ofan í sundlauginni og myndinni verður varpað þangað. Þá verði sérstöku hljóðkerfi, sem varpar hljóði undir yfirborði vatnsins, einnig komið fyrir. Því verði einungis hægt að sjá og heyra í því sem fram fer með því að kafa undir vatnsyfirborðið.
Sundbíóið hefst klukkan 19 þann 29. september með klukkustundarlangri dagskrá með blönduðu efni, þ.á.m. stuttmyndum við hæfi barna. Stuttmyndirnar eru þær sömu og verða sýndar á skjáum víða um bæinn meðan á hátíðinni stendur, m.a. í útibúum Landsbankans, bókabúðum Máls og menningar, hárgreiðslustofunni Centrum og víðar.
Klukkan 20 hefst sýning Ókindarinnar, sem Steven Spielberg gerði árið 1975. Segir í tilkynningu frá Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Reykjavík, að ef upplifunin verði of raunveruleg sé alltaf hægt að flýja upp á bakkann og horfa á myndina í öruggri fjarlægð því henni verði einnig varpað á venjulegt tjald með hefðbundnu hljóðkerfi fyrir þá áhorfendur sem líður best á þurru landi.
Sundbíóið er haldið í samvinnu við Hitt húsið og Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur.