Rithöfundurinn Stefán Máni hlaut Íslensku glæpasagnaverðlaunin 2007, Blóðdropann, sem voru afhent í fyrsta sinn í bókabúðinni Iðu í gær.
Verðlaunin hlaut Stefán Máni fyrir bókina Skipið sem verður jafnframt framlag Íslands til norrænu glæpasagnaverðlaunanna Glerlykilsins 2008.
Skipið er sjöunda bók Stefáns Mána sem er fæddur árið 1970 í Reykjavík en alinn upp í Ólafsvík. Sagan segir frá skrautlegri áhöfn skipsins Per se. Skipverjar eru níu talsins og flestir með eitthvað misjafnt í pokahorninu. Þannig er einn nýbúinn að myrða eiginkonu sína og annar er með handrukkara á hælunum. Sagan segir frá ógnum, fjandskap, tortryggni og baráttu þeirra í milli um borð í skipi á reginhafi.
Rökstuðningur dómnefndarinnar fyrir vali sínu var þessi:
Blóðdropann 2007 og tilnefningu Íslands til Glerlykilsins hlýtur Stefán Máni fyrir sögu sína Skipið. Höfundur sýnir í þessu verki geysigóð tök sín á forminu, þar sem hann skapar svo þrúgandi og ógnvekjandi andrúmsloft að lesandinn á bágt með að slíta sig frá ógeðfelldri áhöfn hins skelfilega skips. Þá ber einnig að geta þess að dómnefndin hreifst sérstaklega af hæfileikum höfundarins í tungumáli og stíl.