Brasilíska ofurfyrirsætan Gisele Bundchen sendi Viktoríu og Davíð Beckham tóninn fyrir að baða einkalífið í kastljósi fjölmiðlanna. Bundchen segir að hún sjálf og kærastinn hennar, bandaríska ruðningshetjan Tom Brady, séu alls ekkert lík Beckhamhjónunum því að þau haldi einkalífinu út af fyrir sig.
Þegar Bundchen var spurð hvort hún og Brady væru „Posh og Becks“ Bandaríkjanna brást hún ókvæða við og harðneitaði að svo væri. „Það er fáránlegt! Ekki veit ég hver hefur haldið því fram. Vinnan mín er vinnan mín og einkalífið er einkalíf. Þetta tvennt er alveg aðskilið.“
Bundchen sagði að hún myndi ganga af göflunum ef hún lifði lífinu í kastljósi fjölmiðlanna. „Vinnan mín er áberandi, og það er mikilvægt að halda einhverju alveg út af fyrir sig. Annars myndi maður ganga af göflunum.“
Fyrir skömmu viðurkenndi Bundchen að hún lægi aldrei á skoðunum sínum. Hún olli miklu fjaðrafoki í heimalandi sínu, þar sem kaþólska kirkjan er áhrifamikil, er hún lýsti stuðningi við notkun getnaðarvarna.
„Þegar ég hugsa eitthvað hef ég tilhneigingu til að segja það. Ég ligg aldrei á skoðunum mínum. Það eru til margir kynsjúkdómar og það kemur ekki til greina að ég segi að maður ætti ekki að nota getnaðarvarnir.“