Í von um að fá fleiri konur í félagið, og jafnvel komast á stefnumót með systrafélagsstelpum, hafa strákarnir í tölvuklúbbi Washington State-háskólans í hyggju að halda uppboð á nörðum. Hugmyndin er að í staðinn fyrir tölvukunnáttu sína fái nirðirnir yfirhalningu og - ef guð lofar - stefnumót.
„Kauptu þér nörð og hann getur lagað tölvuna þína, hjálpað þér með heimadæmin og ef þú er virkilega ævintýragjörn er hann til í að bjóða þér út að borða!“ sagði Ben Ford, formaður Linuxnotendahópsins í tölvuklúbbnum.
Þetta hófst allt með því að gera átti tilraun til að fá fleiri konur til að hefja tölvunarfræðinám í skólanum. Nemendur í almannatengslum ákváðu að koma til hjálpar með því að greina hópeflið í Linuxhópnum. Niðurstaðan var sú, að hópurinn þyrfti að bæta kynningu sína, og stungu almannatengslanemarnir upp á samstarfi við tiltekin félög eins og til dæmis systrafélög, sem hafi yfirleitt mjög góð félagstengsl.
„Þegar þau stungu upp á því að við tækjum höndum saman með systrafélagi hélt ég að þau væru að grínast,“ segir Ford. Hugmyndina að nörðauppboðinu segist hann hafa fengið þegar hann var í sturtu. Hugmyndin er að uppboðið verði opið öllum nemendum skólans, og systrafélag fengið til að verða „stuðningsaðili.“
Ford segir að enn hafi þó ekki tekist samningar við neitt systrafélag.