Þriðja táknið eftir Yrsu Sigurðardóttur kemur á markað í Bandaríkjunum hjá bókaforlaginu William Morrow næstkomandi mánudag en nú þegar eru umsagnir teknar að birtast um bókina vestra. Tímaritið Kirkus Review segir í nýlegum dómi að Þriðja táknið sé „spennandi, heillandi og einstök" glæpasaga. Greint er frá þessu á vef Veraldar, útgefanda Þriðja táknsins.
Gagnrýnandi Library Journal ritar að þetta sé glæpasaga með tveimur vel unnum aðalpersónum, óvenjulegri umfjöllun um nornir, og mælir með bókinni fyrir öll almenningsbókasöfn. Hún sé sérstaklega tilvalin fyrir alla þá er hafi gaman af norrænum glæpasögum.
Þá eru teknar að birtast lofsamlegar umsagnir um Þriðja táknið á ýmsum netmiðlum vestan hafs. Þar er Þriðja táknið sagt „ein besta glæpasaga sem komið hafi út á liðnum árum" og að þetta sé „frábær spennusaga."