Tónleikaferðalag hljómsveitarinnar Sigur Rósar er að margra mati einn merkilegasti viðburður í íslenskri tónleikasögu. Heimildamyndin Sigur Rós – Heima gerir þessari óvenjulegu tónleikaferð ítarleg skil en myndin var frumsýnd í gær í Háskólabíói. Sýningin var jafnframt opnunarsýning Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík.
Þormóður Dagsson gefur myndinni fullt hús, eða fimm stjörnur, í dómi sem birtist í blaðinu í dag þar sem hann segir m.a. að myndin sé „sérlega hughrífandi verk sem fer vel í augu og eyru“. Hann skrifar einnig að myndin sé „svo sannarlega mynd sem fær mann til að líða vel“.
Þá hlýtur myndatakan mikið hrós og sömuleiðis klippingin en sérstakt lof fær tónlistin og hljóðvinnslan sem stóð upp úr að mati gagnrýnanda.
Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.