Bók O.J. Simpson, If I Did It, sem segir frá því hvernig hann hefði myrt fyrrum eiginkonu sína, hefur náð öðru sæti á lista New York Times yfir vinsælustu bækurnar sem ekki eru skáldsögur. Bók Simpson hefur selst í fleiri eintökum en nýútkomin bók Bill Clinton, fyrrum Bandaríkjaforseta, sem heitir Giving.
Listinn nær yfir vikuna 16. til 22. september, en það er fyrsta heila vikan sem bók fyrrum ruðningskappans hefur verið til sölu. Hann á að birtast í New York Times þann 7. október nk. en bókaútgefandinn Beufort Books birti listann hinsvegar rúmri viku fyrr, eða í gær.
Á lista New York Times sem var birtur í dag, og nær yfir vikuna 9. til 15. september, er bók Simpson í þriðja sæti, en þá hafði bókin aðeins verið tvo daga í sölu.
Bókin var gefin út 14. september sl. sem er sami dagur og fyrstu fréttir bárust af því að Simpson, sem var sýknaður árið 1995 um að hafa myrt eiginkonu sína og vin hennar, hafði verið yfirheyrður af lögreglu í tengslum við meint rán í Las Vegas. Hann var í framhaldinu ákærður fyrir vopnað rán, mannrán og árás.
Samkvæmt nýjustu sölutölunum féll bók Clintons, sem fjallar um mannúðarstarf, úr öðru sæti í það þriðja. Mest selda bókin í flokki bókmennta annarra en skáldsagna er The Age of Turbulence eftir fyrrum seðlabankastjóra Bandaríkjanna, Alan Greenspan.
Fréttavefur Reuters greindi frá þessu.