Öll trixin í bókinni er heitið á nýrri bók um Einar Bárðarson sem samkvæmt öruggum heimildum Morgunblaðsins er væntanleg í verslanir fyrir jól, en það er JPV sem gefur út. Í bókinni fer Einar "umboðsmaður Íslands" yfir viðburðaríkan feril, setur árangur sinn undir mæliker og ljóstrar upp ýmsum „trixum" og leyndarmálum í hinum viðsjárverða tónlistarbransa, en það er Arnar Eggert Thoroddsen, blaðamaður, sem skrásetur.
Ítarlegar upplýsingar um efnistök liggja ekki fyrir á þessari stundu en víst er að Einar hefur úr nógu að moða og telja má til Evróvisjónmálið mikla í kringum lag hans „Birtu", útrás Nylon-hópsins og Garðars Thors Cortes, auk þess sem Einar hefur verið atorkusamur í innflutningi á erlendum tónlistarmönnum til landsins í gegnum tíðina.