Þjóðverji sem hafði hvergi dregið af sér í bjórþambinu á Októberhátíðinni í München festist í reykháf og sat þar í tólf tíma uns slökkviliðsmenn komu honum til bjargar. Hann var á leið í heimsókn til vinar síns, og valdi þangað óvenjulega leið.
Umræddur maður er 27 ára. Þegar hann komst að því að vinur hans var ekki heima klifraði hann upp á þak á næsta húsi og ætlaði að fara niður það sem hann hélt að væri bil á milli húsanna.
Þegar til kom hafði hann skriðið um 30 metra niður um reykháf - með höfuðið á undan, að því er lögreglan í München greindi frá. Þetta gerðist um miðja nótt. Á endanum heyrði húsvörður á hóteli í næsta húsi neyðaróp mannsins, og kallaði á slökkviliðið, sem bjargaði hátíðargestinum úr prísundinni með því að gera gat á reykháfinn.
Maðurinn hlaut einungis lítilsháttar meiðsl, en var fluttur á sjúkrahús vegna ofkælingar.