Mýrin, kvikmynd Baltasars Kormáks, verður framlag Íslands í keppninni um bestu kvikmynda á erlendri tungu á Óskarsverðlaunahátíðinni í Bandaríkjunum á næsta ári. Mýrin vakti mikla athygli á kvikmyndahátíðum í Norður-Ameríku, kvikmyndahátíðinni Telluride í Colorado og Toronto-hátíðinni í Kanada.
Í viðtali við Morgunblaðið nýverið kom fram í máli Baltasars Kormáks að eftir að Mýrin var valin besta myndin á Karlovy Vary kvikmyndahátíðinni í Tékklandi fór boltinn að rúlla.
Dreifingarfyrirtækið IFC hefur keypt dreifingarréttinn á Mýrinni í Norður-Ameríku en IFC er öflugt dreifingarfyrirtæki á óháðum og erlendum myndum í Norður Ameríku.
Vefur Hollywood Reporter greinir frá þessu.