Faðir tólf ára gamals drengs sem leikur eitt aðalhlutverkið í kvikmynd sem byggir á bók Khaled Hosseini Flugdrekahlauparinn, segir að myndin verði ekki frumsýnd fyrr en tryggt verði að þeir feðgar geti yfirgefið Afganistan. Óttast faðirinn um öryggi drengsins vegna nauðgunarsenu í myndinni.
Í bandaríska dagblaðinu New York Times í dag kemur fram að dreifingaraðili myndarinnar, Paramount Vantage, hafi frestað útgáfu myndarinnar til þess að gefa þremur barnanna sem leika í myndinni færi á að yfirgefa Kabul, höfuðborg Afganistan, vegna nauðgunarsenunnar. Í Flugdrekahlauparanum er ungum dreng, Hassan, nauðgað af illmenni og skiptir þessi atburður miklu um framvinduna í metsölubók Hosseinis. Hassan er besti vinur aðalsöguhetjunnar, Amirs, en Amir, sem er vitni að atburðinum, gerir hins vegar ekkert til að hjálpa vini sínum og harmar það alla tíð, atburðurinn breytir eðli vináttu þeirra varanlega.
Upphaflega átti að frumsýna myndina í Bandaríkjunum í lok nóvember en ekki hefur verið gefið upp hvenær hún verður sýnd eftir að ákveðið var að fresta frumsýningu hennar.
Ahmad Jaan Mahmidzada, sem er faðir Ahmad Khan Mahmidzada sem leikur Hassan í myndinni, segir að Paramount Vantage hafi lofað því að leysa öll vandamál sem upp geta komið í tengslum við myndina, hvort sem það er nú eða í framtíðinni. Í samtali við AP fréttastofuna segir Mahmidzada að félagið hafi frestað frumsýningu myndarinnar þar til þeim feðgum verður komið úr landi.
Ahmad Khan fékk 10 þúsund dali fyrir hlutverkið en í síðasta mánuði sagði hann að hann hefði aldrei tekið að sér hlutverkið ef hann hefði vitað fyrirfram að Hassan yrði nauðgað í myndinni. Fjölskylda hans segir að þau hafi ekki vitað um atriðið fyrr en nokkrum dögum áður en það var tekið. Að sögn Mahmidzada eldri ganga nauðganir gegn mannlegri reisn í augum Afgana og ljóst sé að atriðið muni vekja mikla reiði í landinu.
Mahmidzada eldri segist óttast að sagan stuðli að spennu í samskiptum þjóðarbrotanna í Afganistan, enda ali hún á ímynd pastúna sem þjóðar sem sýni hinum þjóðarbrotunum í landinu yfirgang (en nauðgarinn er pastúni), en hazarar birtist þar sem undirmálsfólk (Hassan er hazari í sögu Hosseini).
Pastúnar eru fjölmennasta þjóðin í Afganistan og börðust m.a. við hazara í borgarastríðinu í landinu sem braust út eftir brotthvarf Sovétmanna 1989. Sambúð þjóðarbrotanna í Afganistan hefur verið tiltölulega góð frá falli talibanastjórnarinnar 2001 en Afganar óttast þó að ekki þurfi mikið til að kveikja aftur í púðurtunnunni.