Bandaríska söngkonan Britney Spears er sögð hafa ákveðið að hefja þunglyndis- og áfengismeðferð á meðferðarstofnuninni Crossroads Centre í Antigua nú um helgina. Í gær hafnaði dómari beiðni hennar um að hann endurskoði þá ákvörðun að svipta hana tímabundið forræði yfir tveimur ungum sonum hennar.
„Lögfræðingar og aðstandendur Britneyjar hafa unnið að því í náinni samvinnu að finna leið til að hún fái börnin aftur frá Kevin,” segir heimildarmaður tímaritsins OK! og vísar þar til föður barnanna Kevin Federline. „Hún ætlar að fara í meðferð við þunglyndi og áfengissýki þannig að það sé á hreinu hvort hún drekki og mæti í áfengispróf í náinni framtíð."
Heimildarmaðurinn segir að söngkonunni virðist ljóst að hún þurfi að ná stjórn á lífi sínu ætli hún ekki að missa drengina varanlega og að hún muni gera hvað sem lögfræðingar hennar og nánustu aðstandendur telji best til að hún fái drengina aftur. „Hún nýtur þeirrar hjálpar sem hún þarf á að halda og það vona allir að hún fari alla leið í þetta sinn,” segir hann en söngkonan skráði sig tvisvar inn á meðferðarstofnanir fyrr á þessu ári en yfirgaf þær skömmu síðar.