Fréttavefur breska tónlistartímaritsins NME greinir frá því í dag að erkibretarnir í Oasis séu að íhuga að gefa næstu plötu sína út eingöngu á netinu, og þá með svipuðum hætti og hljómsveitin Radiohead, sem gefur út plötu sína á netinu á morgun og ákveða hlustendur sjálfir hvað þeir greiða fyrir plötuna.
Oasis eru sem stendur án samnings og gefa næstu smáskífu, Lord Don't Slow me Down, eingöngu út á netinu um útgáfufyrirtækið Big Brother, sem er í eigu hljómsveitarmeðlima.
Ýmsir hafa haldið því fram að útgáfumál séu mjög að breytast og að fleiri muni fylgja í fótspor Radiohead fyrr en varir. Tónlistarmaðurinn Prince lét nýjasta disk sinn fylgja dagblaði og þá tilkynnti hljómsveitin Charlatans nýlega að nýjasti diskur sveitarinnar yrði gefinn endurgjaldslaust á netinu þar sem að mun meiri tekjur væru í tónleikahaldi og sölu á ýmis konar varningi.