Fíkjulauf úr gifsi í yfirstærð er á heiðursstað á sýningu, sem nú hefur verið opnað í Barbican Centre í Lundúnum og fjallar um erótíska list. Fíkjulaufið var fylgihlutur með afsteypu af höggmynd Michelangelos af Davíð, sem hertoginn af Toskanahéraði gaf Viktoríu Englandsdrottningu árið 1857. Var fíkjulaufinu stóra ætlað að hylja tiltekinn stað á styttunni svo drottningin þyrfti ekki að blygðast sín.
Að sögn Reutersfréttastofunnar er um að ræða stærstu sýningu sem haldin hefur verið á list af þessu tagi. Yfir 300 verk eru þar til sýnis, allt frá fornum grískum bikurum til risastórra ljósmynda bandaríska listamannsins Jeff Coons sem sýna hann og þáverandi eiginkonu hans, ungversku klámdrottninguna Ilonu Staller, í ástarleikjum.
Kate Bush, safnstjóri Barbican, sagði að ekkert á sýningunni væri klúrt eða tilefnislaust þótt sýningin sé bönnuð innan 18 ára. „Þetta er ekki sýning um kynlíf eða klám heldur alvarleg úttekt á lista- og safnasögu. Þetta er sýning, sem fjallar um túlkun listamanna á kynlífi sem grundvallarreynslu sem tengir alla."
Marina Wallace, sýningarstjóri, segir að margir af mununum á sýningunni hafi verið bannaðir eða ritskoðaðir. Mikilvægt sé að skoða munina í sögulegu samhengi.