Þið skuluð aldrei bjóða Sigur Rós í útvarpsþátt. Þetta er ráð, sem Luke Burbank, þáttastjórnandi hjá NPR útvarpsstöðinni í New York gefur á heimasíðu stöðvarinnar. Stöðin fékk Sigur Rósarmenn í heimsókn á föstudag og er myndskeið með viðtalinu birt á heimasíðunni.
Sigur Rós var í New York til að kynna myndina Heima sem fjallar um tónleikaferð hljómsveitarinnar um Ísland.
Burbank segir, að hugsanlega hafi útvarpsviðtalið verið það versta í sögu rafrænnar miðlunar en viðmælendurnir voru ekki sérlega skrafhreifnir. Hann tekur hins vegar fram, að hann hafi miklar mætur á hljómsveitinni, ætli að verða fyrstur til að kaupa væntanlega plötu sveitarinnar, Hvarf/Heima, þegar hún komi út í nóvember, og hann hvetur jafnframt alla til að sjá Heima.