Dómari í forræðismáli bandarísku söngkonunnar Britney Spears og fyrrum eiginmanns hennar Kevin Federline úrskurðaði í gær að söngkonan mætti hafa syni sína tvo hjá sé yfir nótt einu sinni í viku en hún var nýlega svipt forræði yfir drengjunum tímabundið. Eftirlitsaðili verður þó að vera á heimili hennar allan þann tíma sem börnin dvelja þar.
Lögfræðingar söngkonunnar höfðu farið fram á aukinn umgengnisréttt hennar við börnin og farið fram á flýtimeðferð í málinu þar sem þeir sögðu það rugla þá í ríminu að vera vaktir af eftirmiðdagsblundi sínum til að fara til föður síns.
Mark Vincent Kaplan, lögmaður Federline sem fer nú með forræði drengjanna, hafði lagst gegn því að drengirnir gistu hjá móður sinni og sagði engin ný rök liggja fyrir umsókn hennar.
„Ég sé ekki að það liggi neitt á eða að neitt nýtt hafi komið fram,” sagði hann áður en málið var tekið fyrir í gær.
Dómarinn neitaði upphaflega að taka afstöðu til málsins en féllst síðan á beiðni söngkonunnar eftir að hún kom fyrir dóminn fjórum klukkustundum eftir að málsmeðferð í málinu hófst. Hann neitaði hins vegar að samþykkja að móðir Spears Lynne fengi að taka að sé hlutverk eftirlitsaðila í málinu.