„Rúmenía á 500 manna herlið í Írak, nógu marga til þess að fylla einn kvikmyndasal, og Armenía á 46 hermenn þar sem er passlegur fjöldi fyrir strætóana í Atlantic City, einum fárra staða í veröldinni sem eru meira niðurdrepandi en Írak. Svo er það Ísland. Þeir eru jafngildir Bandaríkjunum í samstarfinu og þeir eiga nógu marga til þess að fylla út í ein jakkaföt." Talan einn birtist við hlið íslenska fánans. „Þetta er ekki innsláttarvilla, þetta er talan einn. Og hún var ekki her. Og hún er nýfarin."
Svo mælti háðfuglinn Jon Stewart í umfjöllun sinni um bandalag hinna viljugu þjóða í Írak í þætti sínum, The Daily Show, í vikunni. En hann virðist þó ætla að kanna betur hvaðan þessi merkilegi her – sem er í rauninni ekki her – kemur og von er á tökuliði frá þættinum til Íslands í næstu viku. Þeir hafa vitaskuld sett sig í samband við Herdísi Sigurgrímsdóttur, upplýsingafulltrúann sem kallaður var heim þegar Ísland dró „herlið" sitt frá Írak.
The Daily Show er þáttur sem hefur heilmikla þýðingu í þjóðmálaumræðunni vestra og hefur Jon Stewart verið einhver helsti gagnrýnandi George W. Bush forseta og ríkisstjórnar hans. Hvernig Ísland kemur honum fyrir sjónir á hins vegar eftir að koma í ljós von bráðar.