„Þetta var bara frekar leiðinlegt viðtal. Þegar við erum fjórir saman erum við alltaf að bíða eftir að einhver annar svari," segir Orri Páll Dýrason, trommuleikari Sigur Rósar, um viðtal sem sveitin fór í í New York á dögunum. Viðtalið var í útvarpsþættinum Bryant Park Project í New York og hefur vakið mikla athygli á Netinu eftir að stjórnendur þáttarins blogguðu um það. Segja þeir viðtalið það versta í sögu rafrænnar miðlunar vegna þess að hljómsveitin svaraði spurningum í vægast sagt stuttu máli, líkt og fram kom í frétt á mbl.is fyrr í vikunni.
Á bloggi útvarpsstöðvarinnar segjast útvarpsmennirnir elska tónlist Sigur Rósar og hvetja fólk til að sjá heimildarmyndina Heima, sem fjallar um ferð hljómsveitarinnar um landið í fyrra. „Við erum ekki vissir um hvort þeir voru þreyttir eða hvort tungumálaörðuleikar skemmdu fyrir, en vá. Í alvöru. Þetta var slæmt."