Búið er að aflýsa friðartónleikum sem fram áttu að fara í Ísrael og Palestínu eftir að stuðningsmönnum Palestínu var hótað ofbeldi. Á tónleikunum átti að kalla eftir lausn á deilum Ísraela og Palestínumanna Frá þessu greindu skipuleggjendur tónleikanna.
Rokkarinn Bryan Adams átti að leika á tvennum tónleikum sem fram áttu að fara samtímis í Tel Aviv í Ísrael og í Jeríkó á Vesturbakkanum þann 18. október nk. Af öryggisástæðum var hætt við tónleikana í Jeríkó í síðustu viku og í gær var ákveðið að hætta alfarið við tónleikana.
Ísraelskir og palestínskir listamenn áttu að troða upp ásamt Adams á tónleikunum.
Sumir Palestínumenn hafa gagnrýnt tónleikana en þeir segja að skipuleggjendur þeirra, One Voice, hafi virt lykilviðhorf Palestínumanna að vettugi, s.s. málefni sem varðar palestínska flóttamenn.