Það ríkti mikil gleði í Kópavogsskóla í gærmorgun þegar 12 ára nemandi þar, Jóhann Fannar Kristjánsson, var mættur á ný eftir vel heppnaða ferð til Kína. Jóhann Fannar sýndi skólafélögum sínum tvenn gullverðlaun sem hann vann í fimleikakeppninni á Special Olympics, íþróttaleikunum sem lauk í Sjanghæ fyrir helgina, en hann kom heim með íslenska keppnishópnum á laugardaginn.
Jóhann Fannar var einn af nítján Íslendingum sem unnu til gullverðlauna í Sjanghæ en hann var yngstur af 32 íslenskum þátttakendum á leikunum. Þeir voru á aldrinum 12 til 46 ára og kepptu í fimleikum, sundi, frjálsíþróttum, keilu, botsía, borðtennis, lyftingum og golfi en alls var keppt í 21 grein á leikunum