Stórtenórinn Luciano Pavarotti skuldaði átján milljónir evra, sem svarar 1,5 milljörðum króna, þegar hann lést, að sögn ítalska dagblaðsins La Repubblica á laugardag. Blaðið hafði eftir lögfræðingi Nicolettu Montovani, síðari eiginkonu Pavarottis, að hann hefði safnað miklum skuldum síðustu árin vegna minni tekna og dýrrar sjúkrahúsvistar.
Montovani, sem er móðir einnar af dætrum Pavarottis, Alice, fær samt peninga úr sjóði í umsjá fjárhaldsmanns samkvæmt síðustu erfðaskrá söngvarans. Sjóðnum tilheyra allar eignir Pavarottis í Bandaríkjunum, meðal annars þrjár íbúðir og nokkur málverk. Eru þær metnar á 15 milljónir evra, sem svarar 1,3 milljörðum króna.
Þrjár dætur Pavarottis frá fyrra hjónabandi fá ekkert úr sjóðnum. Þær erfa hins vegar einbýlishús í Pesaro, við Adríahaf, og íbúð í Monte Carlo sem þær eiga að deila með Montovani. Lögfræðingar hennar og dætra Pavarottis hafa neitað því að komið hafi upp deila um erfðaskrána.