J.K. Rowling, höfundur Harry Potter-bókanna, sagðist í dag vera undrandi á því hversu mikil viðbrögð hafi orðið við þeirri yfirlýsingu hennar að Albus Dumbledore, ein aðalpersónan í bókunum, væri samkynhneigður.
„Mér hefur svo sannarlega aldrei þótt merkilegt að hugaður og snjall karlmaður elski aðra karlmenn,“ sagði Rowling á fréttamannafundi í Toronto í dag, þar sem hún er stödd á bókmenntahátíð.
Viðbrögðin við fregnunum um samkynhneigð Dumbledores hafa eiginlega öll verið jákvæð á vefjum aðdáenda, eins og til dæmis The Leaky Cauldron, þar sem yfir þrjú þúsund athugasemdir hafa verið gerðar við fréttina um tilkynningu Rowlings.
Hún sagði í dag að hún hefði ekki greint frá því fyrr að Dumbledore væri samkynhneigður, vegna þess að hún hefði aldrei áður verið spurð beinlínis að því.