Fyrsta platan sem Britney Spears hefur sent frá sér í fjögur ár, Blackout, er besta plata sem hún hefur nokkurntíma gert, segir tónlistargagnrýnandi Associated Press. Öll 12 lögin á plötunni eru góð, og ættu að duga til að koma Britneyju aftur á toppinn.
„Þó verður að líta á plötuna í réttu samhengi - enginn er að jafna Britneyju við Bob Dylan. Britney er léttvæg söngkona sem ekki nýtur sín nema þegar hún syngur góð lög og hefur fyrsta flokks upptökustjóra sem geta nýtt til fullnustu þá litlu sönghæfileika sem hún hefur,“ segir gagnrýnandi AP.
Og í hverju einasta lagi á Blackout sé þetta raunin. Þetta komi mjög á óvart, í ljósi þess að svo virtist sem óhætt væri orðið að afskrifa Britneyju sem slúðurblaðafóður. „Það má furðu sæta að hún skuli yfirleitt hafa ratað inn í upptökuver, og hvað þá að hún skuli hafa gert þar eitthvað af viti.“