Tökur á kvikmyndinni Englar og djöflar sem er byggð á samnefndri bók Dans Browns hefjast í febrúar á næsta ári. Tom Hanks verður aftur í hlutverki táknfræðingsins Roberts Langdons en hann lék eins og alkunna er prófessor Langdon í Da Vinci-lyklinum.
Myndin verður að mestu tekin upp í Evrópu en eins og þeir vita sem lesið hafa bókina er sögusvið myndarinnar Vatíkanið í Róm. Ron Howard mun aftur stýra framleiðslu og handritshöfundurinn Akiva Goldsman hefur einnig verið ráðinn aftur til að skrifa kvikmyndahandritið.
Sony-fyrirtækið sem framleiðir myndina bindur miklar vonir við hana og ekki þætti þeim verra ef hún skákaði Da Vinci-lyklinum í miðasölu. Frumsýning á Englum og djöflum er áætluð í desember á næsta ári.