Á Airwaves-hátíðinni bar það við að einn af þekktari listamönnum þjóðarinnar gerðist þyrstur er hann gekk af sviði. Sá var hængurinn á að svo naumt var listamönnunum skammtað að ekki voru nema tveir bjórar á mann, sem þegar voru drukknir, og vörður vígalegur við bjórkælinn.
Aðstoðarmaður listamannsins náði því fram með harðfylgi að hann fengi annan bjór, en til að það gengi eftir þurfti að hringja í ýmsa umsjónarmenn hátíðarinnar. Listamaðurinn var ekki par glaður – enda fékk hann ekki annað fyrir spilamennskuna en þessa þrjá bjóra.