Fréttavefur tónlistartímaritsins NME segir frá því að Liam Gallagher söngvari hljómsveitarinnar Oasis sé hjátrúarfullur og trúi þvi að reimt sé í húsinu hans. Heimildarmaður blaðsins segir að Gallagher liggi andvaka um nætur með ljósin kveikt og hlusti eftir undarlegum hljóðum og finnist líkt og einhver úr öðrum heimi horfi á hann.
Ótrúlegasta sagan er þó sú að Gallagher segist viss um að afturganga John Lennon hafi eitt sinn heimsótt hann. „Ég var í Manchester heima hjá kunningja mínum", er haft eftir Gallagher, „ég sneri mér við í rúminu og þá var einhver vera þarna, og það var hann, Lennon".
Þarna má vera komin skýringin á því að tónlist Oasis hefur oft þótt mjög lík tónlist Bítlanna.