„Mér finnst hann fínn. Fjölskyldan situr með popp og kók og horfir á mjög ánægð," segir Egill Helgason um túlkun Arnar Árnasonar á sér í Spaugstofunni, en Örn hefur slegið í gegn sem Egill í síðustu þáttum. „Það hefur komið fyrir að þeir túlki persónur og það komi svolítið neyðarlega út. En mér finnst þetta mjög falleg túlkun hjá honum."
Egill er hæstánægður með Örn og segir að hann sé jafnvel betri en frummyndin. „Ég hef aldrei stúderað hvernig á að koma fram í sjónvarpi og alltaf verið ég sjálfur. Þannig að þarna sé ég sjálfan mig ljóslifandi," segir hann og bætir við að hann hafi séð hárkolluna sem Örn notar í höfuðstöðvum Ríkissjónvarpsins og komist þannig að ráðabruggi Spaugstofunnar.