Ofurfyrirsætan Cindy Crawford hefur vakið reiði meðlima dýraverndarsamtakanna PETA með því að klæðast pels á forsíðumynd rússnesku útgáfunnar af Vogue. Er þetta ekki í fyrsta sinn sem Cindy gerir PETA-liðum gramt í geði.
Fyrir þremur árum féllst hún á að verða talsmaður samtakanna í baráttu þeirra gegn loðfeldaiðnaðinum, en kom síðan fram í auglýsingum fyrir minkapelsaframleiðandann Blackglama.
Ónafngreindur PETA-liði vandaði Cindy ekki kveðjurnar: „Hún er algjört ómenni. Mér finnst hún ljót manneskja og uppþornuð og útjöskuð vörtukelling, og ferli hennar lauk fyrir tíu árum. Burt með þig Cindy, það er öllum orðið sama um þig. Fólk sem klæðist loðfeldum er bara viðbjóðslegt og illgjarnt.“
Annar bætti við: „Maður hefði haldið að með þessa loðnu vörtu á andlitinu ætti hún að geta skilið hvað dýrin mega þola. Líf dýranna sem hún klæðist eru eins og ástarsamböndin hennar: Stutt og kvalafull.“