Silvía Nótt vekur talsverða athygli í Svíþjóð en verið er að sýna sjónvarpsþáttaröð um þessa óvenjulegu stjörnu þar í landi á gervihnattasjónvarpsstöðinni TV400. Fram kemur á vefnum oikotimes, að um 120 þúsund manns hafi horft á fyrstu þrjá þættina og það sé óvenjumikið áhorf á umrædda stöð.
Fjórði þátturinn verður sýndur í kvöld en þáttaröðin fjallar um þátttöku Silvíu Nætur í Eurovisionkeppninni árið 2006.
Á vefsíðunni, sem fylgist grannt með forkeppnum Eurovision, segir að orðrómur sé á kreiki um að Silvía ætli að koma fram í Laugardagslögunum í Sjónvarpinu á laugardaginn og freista þess að komast á ný í Eurovisionkeppnina.