Björk Guðmundsdóttir mun koma fram á tónlistarhátíðinni í Sydney í Ástralíu, sem hefst 5. janúar og stendur í mánuð en dagskrá hátíðarinnar var kynnt í gær. Mun Björk koma fram á þrepum óperuhússins í Sydney.
Meðal annarra tónlistarmanna, sem koma fram í Sydney, eru Brian Wilson og Sufjan Stevens.
Björk mun halda tónleika sína 23. janúar en hún hefur ekki komið fram í Ástralíu í 13 ár.
„Þetta er mikill tónlistarviðburður og þegar goðsagnir á borð við Brian Wilson eiga í hlut og stórir tónleikar með Björk í forgarði Óperuhússins, þá er ljóst að það verður mikið af frábærri tónlist," hafa ástralskir fjölmiðlar eftir Fergus Linehan, framkvæmdastjóra hátíðarinnar.