Vandfundnar eru þær íslensku kvikmyndir sem skarta ekki að minnsta kosti einni nektarsenu. Hilmir Snær Guðnason, einn vinsælasti leikari Íslands, hefur oftar en ekki berað æxlunarfærin í hlutverkum sínum og virðast allar þær kvikmyndir þar sem reðri hans bregður fyrir ganga mjög vel.
„Nei, ég er ekki með klásúlu í samningum þess efnis að vera nakinn. Og ég hef ekki tekið að mér hlutverk einungis vegna þessa, það hefur bara hist svona á einhvern veginn," sagði Hilmir hlæjandi.
Myndirnar sem um ræðir eru 101 Reykjavík, Hafið og Veðramót. Einnig hefur getnaðarlimur Hilmis sést í Fóstbræðrum auk fjölda leikverka á sviði.
„Þetta er bara tilviljun og partur af starfinu. Maður má ekki vera feiminn við þetta. En ég vona að þetta séu samt ekki einu hæfileikarnir sem ég hef upp á að bjóða."