Sveitasöngvarinn bandaríski Garth Brooks er orðinn sá tónlistarmaður sem flestar plötur hefur selt á ferli sínum og tekur þar sæti konungsins Elvis Presley, hvað plötusölu varðar a.m.k. Brooks hefur selt 123 milljónir platna á ferlinum.
Brooks tók í gær við svokölluðum demantsverðlaunum frá samtökum bandarískra plötuútgefenda fyrir plötur sínar „Seven" og „Garth Brooks". Verðlaunin eru veitt fyrir plötur sem selst hafa í fleiri en tíu milljónum eintaka og tók söngvarinn við verðlaununum í fylgd með eiginkonu sinni við stjörnuna sína á „Walk of Fame" gangstéttinni við Hollywood Boulevard.