Tvær nýjar stórverslanir, Just4Kids og Dýraríkið, voru opnaðar í sama húsi við Miðhraun í Garðabæ í morgun. Í gær opnaði BYKO stórverslun í Kauptúni í næsta nágrenni. Fyrir voru á því svæði stórverslanirnar IKEA, MAX og Bónus.
Viðskiptavinir voru farnir að safnast fyrir framan við nýju leikfanga- og barnaverslunina Just4Kids tveimur tímum fyrir opnun, að sögn Elíasar Þorvarðarsonar framkvæmdastjóra. Þeirra á meðal var Gabríel Davíð Hjálmarsson 11 mánaða.
Elías átti von á að tugir þúsunda gesta kæmu á svæðið um helgina.
Verslun Dýraríkisins mun vera ein sú stærsta sinnar tegundar á Norðurlöndum. Gunnar Vilhelmsson, eigandi Dýraríkisins, sagði að viðskiptavinir hefðu strax tekið vel við sér við opnun búðarinnar.