Það vekur athygli manna í Hollywood að hvorki Robert Redford né Meryl Streep sóttu kvöldverð til heiðurs meðleikara þeirra í myndinni Lions for Lambs, Tom Cruise, sem haldinn var honum til heiðurs í American Museum of the Moving Image og fram fór á fimmtudaginn. Ástæðan, segir Roger Friedman fréttamaður Fox-stöðvarinnar, er sú að Redford og Streep geta ekki með nokkru móti þolað Tom Cruise. Þá segir Friedman að hann hafi heimildir fyrir því að samskipti leikaranna hafi verið mjög erfið í London þegar þau voru þar stödd til að kynna myndina því Cruise reyndi margoft að troða sér inn í viðtöl með þeim. Redford á að hafa spyrnt við en Cruise lét víst ekki segjast. Þá hafi Meryl gert eins lítið og hún mögulega getur til að koma að kynningarstarfseminni, hún vilji sem minnst við Cruise sælda.
Talsmaður framleiðenda vill þó ekkert kannast við meint ósætti. "Það er ljótt að halda slíku fram. Þau eru öll góðir vinir."
Á hinn bóginn má reikna með því að Redford, sem er harður fylgismaður demókrataflokksins, hefði ekki unað sér við borðhald Cruise á fimmtudaginn því með honum sat ekki aðeins háttsettur maður innan Vísindakirkjunnar heldur einnig Dan Snyder eigandi ruðningsliðsins Redskins og kunnur repúblikani.