Slúðurvefurinn TMZ.com segir frá því að söngkonan Britney Spears, sem nú berst um forræði barna sinna við dansarann Kevin Federline, hafi fallið á lyfjaprófi sem dómari í forræðismálinu hefur skikkað hana til að taka reglulega. Amfetamín er sagt hafa fundist í prófinu en lögfræðingar Spears eru sagðir halda því fram að rangar niðurstöður hafi komið fram annað hvort vegna astmalyfs sem hún tekur eða Provigil, lyfs sem notað er við svefnsýki.
Hvorugt lyfið er þó sagt skilgreint sem amfetamínlyf og óljóst hvaða þýðingu þetta hefur fyrir forræðismál Spears og Federline, sem fjölmiðlar hafa undanfarin misseri sýnt mikinn áhuga.
Federline fer nú með forræði barnanna tveggja en Britney var svipt forræðinu eftir að hún hlýddi ekki kröfum dómara.