George W. Bush er ekki beinlínis kvikmyndastjarna en hann hefur eigi að síður fengið þann vafasama heiður sem fylgir titlinum Kaldasta manneskjan í Hollywood. Það er vefritið Film Threat sem setti Bush forseta efst á listann yfir 50 kaldlyndasta fólkið í Hollywood.
Listinn samanstendur að sögn blaðsins af valdaminnsta fólkinu í Hollywood sem vekur minnstan áhuga og vekur sömuleiðis minnstan innblástur til mótvægis við alla listana yfir fallegasta, mest kynæsandi fólkið í kvikmyndaborginni miklu.
Bush kemur oft fyrir í kvikmyndum í einhverri mynd, hvort sem það eru heimildarmyndir eða skopstælt útgáfa af honum í grínmyndum og því á það fyllilega rétt á sér að setja hann á blað með kvikmyndastjörnunum segir í Film Threat.
„Hinn öflugi W á jafnmikinn rétt á að vera kvikmyndahetja eins og hver annar einræðisherra og harðstjóri,” segir blaðið.
Annað sætið hreppti Angelina Jolie sem er vanari að verma efstu sætin á vinsældarlistum sem þessum.
Hún þykir vera kaldur fiskur og undarleg blanda af Móður Teresu og Paris Hilton er hún ferðast um þróunarlöndin með her förðunar- og búningameistara í eftirdragi.
Aðrir sem komast á blað yfir kalda fiska eru Nicole Kidman og Hilary Swank sem þykja hafa staðið sig illa í nýlegustu kvikmyndunum sínum.