Íslenskir Tinna-aðdáendur munu hafa ærið tilefni til fagnaðar fyrir jólin því þá kemur út bókin Tinni í Sovétríkjunum en það er fyrsta bókin um ævintýri blaðamannsins knáa sem átti eftir að leggja heiminn að fótum sér.
„Þetta er fyrsta bókin sem Hergé gerir um Tinna og hún hefur aldrei komið út á íslensku áður. Nú eru komnir nýir eigendur að Fjölva og við ákváðum að auka við flóruna í Tinna því nú er hann að rísa upp á lappirnar aftur, svo að segja, hér á Íslandi," segir Jósep Gíslason, einn þriggja nýrra eigenda bókaútgáfunnar Fjölva sem gefur nú út þessa týndu perlu Tinna-bókaflokksins.
Einn þeirra sem bíður spenntur eftir útgáfu Tinna í Sovétríkjunum er lagahöfundurinn og tónlistarspekingurinn Gunnar Hjálmarsson, betur þekktur sem Dr. Gunni.
„Ég bíð þokkalega spenntur eftir bókinni en þetta er reyndar ein af lélegustu Tinna-bókunum."
Gunnar segir að hans fyrstu kynni af Tinna-bókunum hafi verið eins og hjá svo mörgum á sínum tíma, það er að segja, fyrstu Tinna-bókina fékk hann í jólagjöf. „Ég átti flestar bækurnar sem barn en svo upp úr tvítugu fór ég í það að klára safnið."