Franskur dómari dæmdi í dag þrítuga konu til að greiða 1.500 evrur, rúmar 134 þúsund krónur, í sekt fyrir að kyssa málverk með rauðum varalit en verkið er skjannahvítt. Jafnframt var hún dæmd til þess að greiða listamanninum, Cy Twombly, sem er 79 ára, eina evru í táknrænar bætur í samræmi við ósk listamannsins.
Rindy Sam, sem er listamaður sjálf, var handtekin í júlí er hún smellti kossi á verkið í samtímalistasafninu í Avignon. Verkið, sem er 3X2 metrar af stærð, er metið á tvær milljónir evra, 179 milljónir króna.
Við réttarhöldin í október sagði Sam að hún hafi framið gjörninginn af ást. „Ég gerði ekkert annað en að kyssa verkið. Þetta var gert af ást, ég var ekki að hugsa um neitt annað. Ég var viss um að listamaðurinn myndi skilja það."
Saksóknari var hins vegar ekki á sama máli og sagði kossinn jafn ofbeldisfullan og hnefahögg og að hann hafi valdið tjóni sem ekki væri hægt að bæta. „Ég hef ekki sömu sýn á ást. Fyrir mér þarf ást að hljóta samþykki beggja," sagði saksóknari.