Fyrsta útgáfa Michelin fyrir utan Evrópu og Bandaríkin leit dagsins ljós í Japan í dag. Alls fá 150 veitingastaðir í höfuðborg Japans, Tókýó, stjörnur í bókinni. Veitingastaðirnir fá samanlagt 191 stjörnu og hafa stjörnur Michelin aldrei verið jafn margar í einni borg. París átti fyrra metið með 65 stjörnur.
Átta veitingastaðir í Tókýó fá fullt hús eða þrjár stjörnur en það þykir mikill fengur fyrir veitingahús að fá hinar eftirsóttu stjörnur Michelin-bókarinnar. Þrátt fyrir að veitingastaðir í Tókýó geti státað af fleiri Michelin stjörnum í heild þá hefur París vinninginn hvað varðar fjölda veitingastaða sem fá þrjár stjörnur því tíu veitingastaðir í París eru með þrjár stjörnur.