Bandaríska hljómsveitinni Red Hot Chilli Peppers hefur kært framleiðendur sjónvarpsþáttaraðarinnar Californication fyrir að nota nafnið á plötu sinni frá 1999. Telja rokkararnir þarna sé hreinlega verið að stela vörumerki þeirra og öllu sem þeir standa fyrir.
Á fréttavef BBC kemur fram að hljómsveitin fer fram á að varanlegt lögbann verði sett á þættina og einnig fara þeir fram á allan hagnað sem kann að hafa orðið við sölu á þáttunum.
Ein persónan í þáttunum heitir Dani California sem er einnig nafn á lagi með Red Hot Chilli Peppers frá 2006.
Framleiðandi þáttanna hefur ekki tjáð sig um kæruna en í júlí síðastliðnum sagði hann að hann hefði heyrt hugtakið „Californication” á áttunda áratugnum þegar íbúar í Oregon óttuðust að ríkið þeirra væri farið að líkjast um of Kaliforníu og að þar ætti sér stað ákveðin „Californication” og að þaðan væri hugmyndin komin.