George Clooney segir að „glæpsamlegu“ framferði papparassa hafi verið um að kenna að Britney Spears ók yfir á rauðu ljósi, talandi í gemsa og með börnin sín í bílnum, fyrir skömmu. Britney hafi orðið fórnarlamb „hausaveiðara“ sem hlíti engum lögum og reyni að búa til fréttir.
Litlu munaði að Clooney lenti sjálfur í árekstri við papparassa - eða æsifréttaljósmyndara - þar sem hann var á ferð á mótorhjólinu sínu í Hollywood-hæðum á föstudaginn. Hann sagði í viðtali: „Á myndunum af Britney að aka yfir á rauðu má sjá að það eru átta menn með myndavélar á miðri götunni. Það gilda ekki lengur neinar reglur.“
„Nú er svo komið, að óviðkomandi fólk verður fyrir meiðslum. Það sem [papparassarnir] eru að gera er ólöglegt; þeir eru í æðisgengnum kappakstri við hver annan. Þeir eru ekki að reyna að standa mig að verki við eitthvað heimskulegt, þeir eru að reyna að láta mig gera eitthvað heimskulegt,“ sagði Clooney í viðtali í sjónvarpsþættinum Entertainment Tonight.
„Það á enginn að komast upp með að brjóta lög og segja síðan: Ég er bara í vinnunni. Þeir sem fremja þessa glæpi hljóta umbun fyrir það. Þeir verða að einskonar hausaveiðurum fyrir vikið,“ sagði Clooney ennfremur og bað papparassana að fara sér hægar:
„Þið getið tekið myndir, en ekki aka á hundrað kílómetra hraða gegn einstefnu. Ekki meiða fólk sem er málinu óviðkomandi.“